5.3.2013 | 10:52
Ekkert smeyk við að stunda viðvarandi styrjöld á götum úti?
Outlaws, Hell's Angels og öllum hinum hópunum verður ekki hrundið burt með neinum beinum aðgerðum lögreglu. Aðgerðir laganna varða eru sjaldan eða aldrei meira en að taka íbúfen við bólgu: ráðast gegn einkennum.
Sú nálgun - þ.e. tímabundnar aðgerðir sem miðast við að slá á einkenni, frekar en rót vandans - einskorðast ekki við starfssemi lögreglu, heldur virðist vera yfirbygging samfélagsins... hvort sem litið er til banka/fjármálastofnana, alþingis og ráðuneyta, staðbundinna yfirvalda eða þ.h.
Ef við viljum raunverulega losna við skipulagða glæpastarfsemi þá þurfum við að beita aðferðum sem grafa undan þeim grunni sem slík samtök byggjast á... svörtum markaði, vantrausti/fyrirlitningu á yfirvöldum sem og gegnumgangandi skuldavanda og vonleysi fólks.
Tökum dæmi:
Þú ert beðin(n) um að uppræta myglu í húsi vinafólks (afhverju þú... kemur ekki fram!). Þegar þú kemur inn sérðu að ástand þar innanhúss er ekki uppá marga fiska. Pizzakassar, bjórdósir, matarleifar, rusl og musl á borðum, sófum og öðrum mublum. Klístur og fituskán á veggjum og gólfi í eldhúsi. Baðherbergið þakið hárum og gulum blettum. Klósetið líkt og eftir efnaverksmiðjuslys.
Húsfrúin bendir þér að myglunni sem er farin að myndast á nokkrum stöðum í eldhúsinu, sem og í/undir stofusófanum. Hún spyr hvað best sé að gera til að losna við mygluna.
Ráðleggur þú þessu fólki að...
a) fara út í búð sem selur sveppaeitur og kaupa nokkrar mismunandi tegundir af því, fara svo og dreifa eitrinu á mygluna, alls staðar þar sem hún sést?
b) uppræta sóðaskapinn og hreinsa allt hátt og lágt, til þess að fjarlægja lífskilyrði myglunnar algjörlega?
Lögregla, regluverk, skattar - og alltof oft læknisfræði, geðlækningar, landbúnaður o.fl. - díla mjög mikið í a) aðferðafræðinni: ráðast beint gegn einkennunum, án þess að spyrja of ítarlega "hvað veldur? Hver eru grunnorsökin? Í hvaða umhverfi þrífst óværan best?"
-Beinverkir, bólgur, lélegt ónæmiskerfi... eiga það sameiginlegt að vera algengari í lítið/rangt hreyfðum og nærðum líkömum.
-Kvíði, þunglyndi, vonleysi, sinnuleysi... þrífast best í hugum einstaklinga sem lifa við erfiðar [félagslegar] aðstæður, þar sem líkamlegt og andlegt álag er viðvarandi og grunnþarfir hugar og líkama eru vanræktar.
-Maðkur, hvítfluga, lús og pestir.... lifa við allsnægtir á hópum plantna sem fá ekki rétt jafnvægi næringarefna, vatns og súrefnis til róta, koldíoxíðs, sólarljóss, hitastigs, rakastigs o.þh. umhverfisaðstæðna.
-Skipulögð glæpastarfsemi gæti ekki þrifist án þess að "neytendur" vildu í raun kaupa það sem landslög banna... og glæpasamtök bjóða uppá. Svarti markaðurinn er óopinbera hlið hins frjálsa markaðs. Vörur á borð við ýmis fíkni-/vímuefni, t.d. kannabis, sumar teg. neftóbaks+áfengis, kókaíns sem og sumar teg. vopna, ýmiskonar plöntufræ, sveppagró og margflest það sem bannað er til innflutnings, eru lífblóð slíkra samtaka.
Hvenær var helsta tímabil "gangstera" í Bandaríkjunum, t.a.m.? Eitt þekktasta tímabilið eru dagar Al-Capone's... líf og brauð Capone's og félaga voru áfengisviðskipti, sem frá 1920-1932 voru bönnuð með alríkislögum þar í landi.
En skipulögð glæpastarfsemi þarf fleira til að þrífast vel. Það sést kannski best á þeirri staðreynd að nú á dögum kreppunnar (aka. skuldaþrældóms) eru vélhjólagengi og önnur glæpastarfsemi umtalsvert meira áberandi en í fyrri tíð. Það er nefnilega nauðsynlegt að fólk sé hæfilega vonlaust: upplifi sig án valkosta... að það neyðist að grípa til róttækra aðgerða til að vernda eigin afkomu og/eða hagsmuni.
Vissulega leiða málamiðlanir og sjálfs-réttlætingar til lækkaðs siðgæðis... eða í hið minnsta mun minni virðingu fyrir landslögum. En...
...umhverfisaðstæður bjóða uppá slíka mygluskán í skítugum skúmaskotum samfélagsins.
Leggjum minni áherslu á máttlausar og - til langs tíma litið - gagnslausar aðgerðir löggæslu og dómsmálakerfis: þær hafa gert miklu minna gagn en loforð bentu til, oft frekar gerandi ógagn. Leggjum i staðinn meiri áherslu á að tryggja jöfn tækifæri fólks til lífsgæða, þjálfum upp í okkur auknari samfélagslega ábyrgðarkennd, kennum börnum okkar að bera virðingu fyrir fólki og náttúru.
Breytum grandalausri stefnu samfélagsins: skiptum út hugsunarlausri neyslu, sálarlausri efnishyggju og ótakmarkaðri einstaklingshyggju (samkeppni, samkeppni, samkeppni) fyrir ábyrga [sjálfbæra] nýtingu, mann- og lífshamingjuhyggju, ásamt hugsunarhætti sem byggir á þörfum og frelsi einstaklinga en samkennd og samvinnu í þjóðfélaginu.
Núverandi aðgerðir dæma okkur til að hjakka í sama farinu, stefnandi svolítið eins og Titanic á ísjakann. Það eru stærri og mikilvægari hlutir að gerast í heims-samfélaginu, heldur en að festast í smáatriðunum: myglunni útí horni.
Hreinsum frekar til á heimilinu... rekum heimilið á skynsamlegri hátt. Ef enginn finnur sig knúinn til að hreinsa upp eftir sig eða taka þátt í þrifum, einfaldlega vegna þess að allir hinir hugsa eins, þá mun heimilið augljóslega verða ógeðslegt og óíbúðarhæft.
Það er svolítið þannig sem samfélagsumhverfið er í dag.
Ekki smeyk við Outlaws | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.