Hinn endalausi línudans kaupmáttar og verðbólgu; hluti af leiknum.

Ýmislegt hefur áhrif á kaupmátt fólks...

-Gengi gjaldmiðils; hversu mikill kaupmáttur landsefnahagsins er út á við. Er meira að flæða út heldur en inn?

-Heildamagn lausafjárs í umferð. Þetta er etv það mikilvægasta, t.d. er helsti munurinn á ástandinu í dag og ástandinu  fyrir hrun, sá að lánsfé var auðfengið og fjármögnun bæði stórra, miðlungs og smárra fyrirtækja auðveld, sem og fyrir neytendur.

-Kerfislegur kostnaður og skilvirkni. T.d. Hversu hátt hlutfall af skattfé fer í hinn raunverulega samfélagslega kostnað sem réttlætir tiltekna skatta, s.s. þungaskattur og kolefnisskattur, neyðarskatturinn sem settur var á í Heimaeyjar gosinu (átti að vera tímabundinn, aldrei fjarlægður) og þh. Er lítið að skila sér í lagfæringar vega og markvissa minnkun kolefnisútblásturs?
Fjöldi opinberra starfsmanna, hæstu laun opinberra starfsmanna, skortur skilvirkni í vinnslu hins opinbera osfrv er líka drjúgur biti af kökunni.
Margt bendir til að greiðslur af lánavöxtum geti verið talsvert háar hjá mörgum opinberum stofnunum, jafnvel ríkisstjórninni sjálfri; nánast allar stofnanir/einstaklingar eru knúnar til að taka lán, sem af greiðast vextir. Ríkisstjórnin getur þó ekki lagt neitt að veði nema skattatekjur og opinberar eignir (okkar eignir, þeas), sem mætti þessvegna skoða miklu nánar!


-Skilvirkni rekstrar banka og fjármálastofnana. Launakostnaður starfsmanna og veltukostnaður innan þessara fyrirtækja. Hlutfall ávöxtunar á peningum fjárfesta og arðgreiðslur út úr þessum fyrirtækjum. Vaxtahlutfall hefur bein áhrif á kaupmátt, því eftir því sem kaupmáttur einstaklings/fyrirtækis lækkar, er viðkomandi tilneyddur út í lánareddingar og endurfjármagnanir til að standa undir daglegum rekstri, í hvert sinn aukandi vaxtakostnað.
Það má því segja að með því sem meiri kostnaður er af lánsfé og þeim mun minna sem tekjur viðkomandi duga, þeim mun líklegri sé kaupmáttur viðkomandi til að lækka þeim mun meira; frekar neikvæð snjóboltaáhrif!

-Það sem minnst er talað um, en líklega vegur mest yfir langan tíma; á engum tímapunkti koma peningar inn í hagkerfið án þess að greiða þurfi vexti af þeim. Þetta þýðir að ef að heildarfjármagn í öllu hagkerfinu er 100 þá er heildarskuld af lánsfé 100+allir vextir og lántökukostnaður. Það þarf ekki að vera snillingur í stærðfræði til að skilja að þetta er lítið annað en sætaleikur, þar sem 10 manns byrja að ganga í kringum 9 stóla og þegar tónlistin stoppar, verður alltaf einn útundan (í tilfelli efnahagsins, gjaldþrota.)

Hvað gerist svo þegar einhver verður gjaldþrota (nota bene, í núverandi kerfi er það því miður óhjákvæmilegt)?
Einfalt; hinn raunverulegi kapitall sem settur var að veði fyrir peningaláninu (peningurinn er ekki beint raunverulegur kapitall, heldur frekar ávísun á kapital, eins og leikborðspeningar í rúllettu)... er heimtur inn af bankanum eða lánveitanda.

Í dag, eftir hrun, eiga bankar og fjármálastofnanir margfalt stærra hlutfall af öllum hlutabréfum, fasteignum og öðrum kapital heldur en fyrir hrun, þrátt fyrir (og einmitt vegna þess) að heildarfjármagn í pottinum sé minna.

HVAÐ ÞARF... til að hagkerfið geti gengið eins og smurð vél?
Því má líkja við pípulagnakerfi í margra hæða fjölbýlishúsi; til að allar íbúðir hafi vatn á krönum þarf þrýstingurinn að vera nægur. Ef þrýstingurinn er of mikill er hætt við að eitthvað gefi sig (hrun, anyone?). Ef þrýstingur er of lítill (t.d. vegna þess að einhversstaðar lekur) er bókað mál að einhverjar íbúðir hafa lítið vatnsrennsli eða jafnvel ekkert (þverrandi kaupmáttur; kreppa!).
Þrýstingurinn á hagkerfinu í dag er allt of lágur til að allir hafi nægt "vatn á sínum krönum", því miður. Þá gildir einu hvort að við krefjum nokkra byrgja um að hækka ekki söluverð til smásala, því að þessir byrgjar eru að öllum líkindum fastir í skuldasnjóboltanum eins og flestir.

Bankar og fjármálastofnanir halda á öllum mikilvægust lyklum hagkerfisins, og hafa gert í vel yfir 100-150 ár.
Ef við viljum koma í veg fyrir verðbólgu í eitt skipti fyrir öll, þá þarf að laga "dælurnar" sem halda þrýstingi á kerfinu og tryggja að engar lagnir leki!


mbl.is „Blöskraði“ hækkanir birgja á matvöru“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitur í matvælum... er það nýtt?

Aldrei fyrr í mannkynssögunni hefur jafn mikið af misjafnlega öruggum og hættulegum efnum endað á einn eða annan hátt í fæðukeðjunni.

Stundum er það óbein umhverfismengun, sbr þungamálma og geislavirk efni sem skolast út í sjó.

Stundum eru það rotvarnarefni, bragðefni eða önnur dæmigerð matariðnaðarefn, skaðsemi þeirra loks uppgötvuð eftir mislangan tíma inn á markaðnum (allt of mörg dæmi um slíkt, frá byrjun iðnaðareldhússins til dagsins í dag)

Stundum - í sífellt meiri mæli - mælist fullhátt innihald meindýra- eða sveppaeiturs í matvælum. Það er í raun óhjákvæmilegt að eitt af tvennu gerist í "pest-control" málum landbúnaðar og garðyrkju:

1) eftir því sem sveppir/pestir verða þolnari gagnvart eitrinu, þarf að nota þeim mun meira, oftar og lengur yfir ræktunartímann.

2) ný efni koma á markað, sem leysa af þau gömlu, oft með ákveðinni óvissu um öryggi efnis yfir lengri tíma og áhrif á neytendur...og að lokum þarf að leysa nýju efnin af á ný.

Þetta er vandamálið sem iðnaðarlandbúnaður nútímans stendur frammi fyrir. Án þess að breyta nálgun okkur algjörlega að fæðuframleiðslu og -dreifingu, er hætt við að tilfellum á borð við þessa eitrun fjölgi.

Fæðuöryggi og auðlindamál munu verða að sífellt umfangsmeira og mikilvægara málefni á næstu misserum, tel litlar líkur á öðru!


mbl.is Eitur í pitsum og lasagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Splunkunýju föt keisarans

Stjórnmálamenn koma og fara... og þjóðin horfir einblínd á andlits-skiptin sem eiga sér stað á Hinum Reglubundnum Fresti, bíðandi eftir því að leiðtogarnir leiði sig í gegnum eyðimörkina, að fyrirheitna landinu (yfirleitt fyrirheitnu í aðdraganda Hins Reglubundna Frests).
Er það bara ég eða er trúarbragðskeimur af þessu?

Við lepjum upp kjaftæðið...
-Frá flokkum og ríkisstjórnum
-Úr fréttum, sjónvarpi og útvarpi
-Sem bankinn, bensínstöðin og stórmarkaðurinn (ásamt hinum) kalla "góða þjónustu"

...í stuttu máli gleypum við upp það sem hrinur niður á gólfið af veisluborðinu stóra langt, langt fyrir ofan okkur.
Stórrar, róttækrar breytingar er þörf til að þetta samfélag geti með sönnu kallast siðmenntað, mannúðlegt, frjálst og upplýst. Vel þjálfaðar sauðkindur eru nefnilega ekki hugsandi einstaklingar!

Í dag höfum við lítið annað en nýju fötin keisarans.
Í grundvöllinn sami gamli keisarinn en bersýnilegur öllum þeim sem opna augun og þora að segja eins og er:
"Hey, gaurinn er allsber!"

Samfélagið hefur myndað þögult samþykki um að trúa á augljóst kjaftæði. Ef þú trúir því ekki, þá ert ÞÚ sá skrýtni ;)

ÉG einfaldlega VONA... að öll hin "nýju" sem sest eru á stól í
"Alþingi (R) Reglur í stað Frelsis (tm)"
hafi tekið með sér sleggjur, því að í tilfelli okkar VirðuLega þings og stjórnarfyrirkomulags þá er lítið annað sem getur brotið þögnina um keisarafötin.

Þangað til, mun fátt koma frá þingmannastétt og valdateflurum nema gegnhol orð - skurnin af egginu - gjörsneydd allri dýpt, fyllingu og oftast sannleik. Í skoðanaumhverfi valdastéttarinnar er ekkert krassandi krydd eða brakandi ferskt, bara bragðdaufar skoðanir úr endurnýttu hráefni.


mbl.is Fólkið í ríkisstjórn Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirborðskennd umbúðahyggja... eða lækningar lýta?

Áður en ákveðið sé hvort manneskja vilji leggja upp í "lýtaaðgerð", er vert að spyrja...

...Hvað er lýti?

Samkvæmt huglægri túlkun tíðarandans á skilgreiningu fegurðar, getur eitt eða annað kallast lýti og eitt eða annað kallast fegrandi.
En það er mikilvægt að muna að varanleg skilgreining á fegurð... er í raun ekki til!

Áður fyrr þótti holdamikil og brjóstagóð kona skilgreining fegurðar... á öðrum tíma var siðsamlegur, dömulegur fatnaður og permanent málið... svo ekki sé minnst á viktoríutímabilið, magi aðþrengdur í lífstykki og rass bólstraður með útstæðum kjól var lágmark!
Í ýmsum kúltúrum ganga konur berbrjósta með lafandi brjóst... meðal inúíta þykja stuttar og þéttar kellur með kringluleit andleit, römmuð inn í loðskinnshettu vera sérlega heitar.

Hvað litið er á sem Fegurð veltur algerlega á félagslegu umhverfi, á menningu samfélagsins sem á í hlut. Þessvegna þykir mér persónulega vera afar rangt að konur og karlar finni sig knúin til að breyta lögun og útliti líkama síns, til þess eins að nálgast meir hina "stöðluðu ímynd" fegurðar sem - eins og hver önnur sölusvara - er markaðsett miskunnarlaust af auglýsingaiðnaðinum...

Þessi "virðulegi" iðnaður, sem sér til þess að við höfum alltaf á hreinu hvaða vara sé ný og heit, hvaða tískustraumar séu ríkjandi og hvað sé almennt "hot or not", hvort sem um fólk, þjónustu eða vöru ræðir.
Lífstíll og hugsunarháttur er engu minni auglýsingavara heldur en einstakar vörur einstakra fyrirtækja.
Í sjónvarpi, útvarpi, neti og öðrum vettvangi er predikað beint og óbeint um neysluhyggjuna og hinn vestræna lífstíl. Og auglýsingar eru alltaf víðfeðmara hugtak hvert árið sem líður, alltaf skríða þær dýpra undir húðina okkar, alltaf er erfiðara að koma auga á hvað sé auglýsing og hvað sé í raun verið að auglýsa. Þær sníða sig að hegðun okkar á netinu. Þeim er beint að börnum, svo börnin geti suðað í foreldrum sínum, og hægt sé að "þjálfa" þau upp í að verða hörkuneytendur, ævilangt.

Útlitsdýrkunin er ein af aukaverkunum þessa stanslausa áróðurs sem við höfum verið heilaþvegin af síðustu áratugi, jafnvel árhundruð.

Allt snýst um umbúðirnar, en lítil áhersla er lögð á gæði innihaldsins. Þannig eyða einstaklingar heilum og hálfum æviskeiðum í að "presenta" sig vel: pæla í fatnaði, hárgreiðslu, líkamlegu útliti, framkomu, vinsældum osfrv... en litla áherslu á að rækta garðinn sem er hugur og sjálfsvitund okkar hvers og eins.
Örlítið eins og að hafa litlu garðspilduna sem snýr út að götu í tip-top, gríðarflottu ástandi, en allt í drasli og skít innandyra, sem og í órækt og illgresi í risastóra bakgarðinum!

Afhverju þarf allt að líta eins út til að vera fagurt og flott? Ég vil það ekki! Ég vil það sem er EKTA, það sem kemur innan frá, það sem hefur þýðingu og gildi. Ég álít fjölbreytni og sérstæði vera fegurð... hina sönnu náttúrulegu fullkomnun.

Falleg dúkka án persónuleika og hæfni, eða eðlileg kona, full af persónuleika og lífstilgangi, sem ræktað hefur eigin huga og hæfileika? Hvor yrði vænlegri í makaval... sem móðir... sem vinur eða samstarfsaðili?

KONUR... verið EKTA!

Þið þurfið ekki meik, þið þurfið ekki nýjustu skóna... þið þurfið ekki plasttúttur og uppstoppuð sköp! Þið þurfið ekki að fórna eigin einstakleika fyrir hina "almennt samþykktu" fegurðarímynd!

Kvenleiki ykkar... er MEÐFÆDDUR, þið þurfið ekkiþykjast. Gleymið öllu Disney ruglinu sem  sjónvarpið forritaði í ykkur sem krakka,  safnið gömlu barbídúkkúnum og brennið þær, ásamt fötunum sem eru svo þröng að beinagrindur eiga í vandræðum með að klæðast þeim.

Ef þið viljið ganga í háum hælum, munið að þyngdaraflið vinnur alltaf... og því er alveg sama um tognaðan fót eða viðvarandi bakvandamál fram á háan aldur.

Við erum öll að eldast. Við getum fagnað reynslu og visku eldri ára, eða grátið í móðursýkislegri nostalgíu um glataða æsku...
Æskudýrkunin er ein af áhrifaríkustu uppfinningum auglýsingaiðnaðarins, sem smátt og smátt hefur tröllriðið öllu frá því að henni var fyrst ýjað að fólki, fyrir um 40-50 árum. Þar áður þótti aldur virðingarverður og reynsla hafði jafn mikið eða meira gildi en fegurð og orka ungdómsins.

Ef þú fæðist inn í þennan heim, lítandi út eins og þú ert... hvaða skynsamlegu ástæðu gætir þú haft fyrir að breyta útliti þínu með ýktum aðferðum? Ef þú ferð í ræktina... gerðu það þá vegna þess að það eykur heilsu og hreysti, en ekki bara vegna líkamlegs útlits.

Verum sátt við okkur sjálf... allt annað er óvinnanlegt stríð gegn okkur sjálfum, sem getur eingöngu leitt af sér ástæðulausa sjálfsfyrirlitningu og djúpstæða óánægju.
Tíska og fegurðardýrkun er plága samfélagsins. Fleiri ungar dömur og drengir hafa tekið eigið líf af þessum ástæðum en við viljum vita... hvað er það annað en hryllileg sóun mannslífa, sorgleg og ónauðsynleg þjáning allra sem koma að máli?

Dagurinn sem þú fattar að skoðanir og viðmót annara gagnvart þér... ERU EKKI ÞÚ... er dagurinn sem þú verður frjáls. Losaðu þig við hlekki yfirborðskenndarinnar... hættu að pæla í gjafaumbúðunum... farðu að pæla í innihaldinu.
Þú skilgreinir þig... og þú græðir ekkert á því að óska að þú sért einhver annar. Það besta sem þú hefur, ert þú.


Við viljum ekki gjafir bara til að fá flottan pappír... a.m.k. ekki mörg okkar.


mbl.is Áður fór engin í skapabarmaaðgerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert smeyk við að stunda viðvarandi styrjöld á götum úti?

Outlaws, Hell's Angels og öllum hinum hópunum verður ekki hrundið burt með neinum beinum aðgerðum lögreglu. Aðgerðir laganna varða eru sjaldan eða aldrei meira en að taka íbúfen við bólgu: ráðast gegn einkennum.
Sú nálgun - þ.e. tímabundnar aðgerðir sem miðast við að slá á einkenni, frekar en rót vandans - einskorðast ekki við starfssemi lögreglu, heldur virðist vera yfirbygging samfélagsins... hvort sem litið er til banka/fjármálastofnana, alþingis og ráðuneyta, staðbundinna yfirvalda eða þ.h.

Ef við viljum raunverulega losna við skipulagða glæpastarfsemi þá þurfum við að beita aðferðum sem grafa undan þeim grunni sem slík samtök byggjast á... svörtum markaði, vantrausti/fyrirlitningu á yfirvöldum sem og gegnumgangandi skuldavanda og vonleysi fólks.

Tökum dæmi:
Þú ert beðin(n) um að uppræta myglu í húsi vinafólks (afhverju þú... kemur ekki fram!). Þegar þú kemur inn sérðu að ástand þar innanhúss er ekki uppá marga fiska. Pizzakassar, bjórdósir, matarleifar, rusl og musl á borðum, sófum og öðrum mublum. Klístur og fituskán á veggjum og gólfi í eldhúsi. Baðherbergið þakið hárum og gulum blettum. Klósetið líkt og eftir efnaverksmiðjuslys.
Húsfrúin bendir þér að myglunni sem er farin að myndast á nokkrum stöðum í eldhúsinu, sem og í/undir stofusófanum. Hún spyr hvað best sé að gera til að losna við mygluna.
Ráðleggur þú þessu fólki að...
a) fara út í búð sem selur sveppaeitur og kaupa nokkrar mismunandi tegundir af því, fara svo og dreifa eitrinu á mygluna, alls staðar þar sem hún sést?
b) uppræta sóðaskapinn og hreinsa allt hátt og lágt, til þess að fjarlægja lífskilyrði myglunnar algjörlega?

Lögregla, regluverk, skattar - og alltof oft læknisfræði, geðlækningar, landbúnaður o.fl. - díla mjög mikið í a) aðferðafræðinni: ráðast beint gegn einkennunum, án þess að spyrja of ítarlega "hvað veldur? Hver eru grunnorsökin? Í hvaða umhverfi þrífst óværan best?"

-Beinverkir, bólgur, lélegt ónæmiskerfi... eiga það sameiginlegt að vera algengari í lítið/rangt hreyfðum og nærðum líkömum.
-Kvíði, þunglyndi, vonleysi, sinnuleysi... þrífast best í hugum einstaklinga sem lifa við erfiðar [félagslegar] aðstæður, þar sem líkamlegt og andlegt álag er viðvarandi og grunnþarfir hugar og líkama eru vanræktar.
-Maðkur, hvítfluga, lús og pestir.... lifa við allsnægtir á hópum plantna sem fá ekki rétt jafnvægi næringarefna, vatns og súrefnis til róta, koldíoxíðs, sólarljóss, hitastigs, rakastigs o.þh. umhverfisaðstæðna.

-Skipulögð glæpastarfsemi gæti ekki þrifist án þess að "neytendur" vildu í raun kaupa það sem landslög banna... og glæpasamtök bjóða uppá. Svarti markaðurinn er óopinbera hlið hins frjálsa markaðs. Vörur á borð við ýmis fíkni-/vímuefni, t.d. kannabis, sumar teg. neftóbaks+áfengis, kókaíns sem og sumar teg. vopna, ýmiskonar plöntufræ, sveppagró og margflest það sem bannað er til innflutnings, eru lífblóð slíkra samtaka.
Hvenær var helsta tímabil "gangstera" í Bandaríkjunum, t.a.m.? Eitt þekktasta tímabilið eru dagar Al-Capone's... líf og brauð Capone's og félaga voru áfengisviðskipti, sem frá 1920-1932 voru bönnuð með alríkislögum þar í landi.
En skipulögð glæpastarfsemi þarf fleira til að þrífast vel. Það sést kannski best á þeirri staðreynd að nú á dögum kreppunnar (aka. skuldaþrældóms) eru vélhjólagengi og önnur glæpastarfsemi umtalsvert meira áberandi en í fyrri tíð. Það er nefnilega nauðsynlegt að fólk sé hæfilega vonlaust: upplifi sig án valkosta... að það neyðist að grípa til róttækra aðgerða til að vernda eigin afkomu og/eða hagsmuni.
Vissulega leiða málamiðlanir og sjálfs-réttlætingar til lækkaðs siðgæðis... eða í hið minnsta mun minni virðingu fyrir landslögum. En...

...umhverfisaðstæður bjóða uppá slíka mygluskán í skítugum skúmaskotum samfélagsins.
Leggjum minni áherslu á máttlausar og - til langs tíma litið - gagnslausar aðgerðir löggæslu og dómsmálakerfis: þær hafa gert miklu minna gagn en loforð bentu til, oft frekar gerandi ógagn. Leggjum i staðinn meiri áherslu á að tryggja jöfn tækifæri fólks til lífsgæða, þjálfum upp í okkur auknari samfélagslega ábyrgðarkennd, kennum börnum okkar að bera virðingu fyrir fólki og náttúru.

Breytum grandalausri stefnu samfélagsins: skiptum út hugsunarlausri neyslu, sálarlausri efnishyggju og ótakmarkaðri einstaklingshyggju (samkeppni, samkeppni, samkeppni) fyrir ábyrga [sjálfbæra] nýtingu, mann- og lífshamingjuhyggju, ásamt hugsunarhætti sem byggir á þörfum og frelsi einstaklinga en samkennd og samvinnu í þjóðfélaginu.

Núverandi aðgerðir dæma okkur til að hjakka í sama farinu, stefnandi svolítið eins og Titanic á ísjakann. Það eru stærri og mikilvægari hlutir að gerast í heims-samfélaginu, heldur en að festast í smáatriðunum: myglunni útí horni.
Hreinsum frekar til á heimilinu... rekum heimilið á skynsamlegri hátt. Ef enginn finnur sig knúinn til að hreinsa upp eftir sig eða taka þátt í þrifum, einfaldlega vegna þess að allir hinir hugsa eins, þá mun heimilið augljóslega verða ógeðslegt og óíbúðarhæft.
Það er svolítið þannig sem samfélagsumhverfið er í dag.


mbl.is Ekki smeyk við Outlaws
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðstýring, peningar, spilling = 10.000 ára gamall farsi

Ó... eru embættismenn Evrópusambandsins á góðum launum...??
Og hljóta fullt af FRÍÐINDUM?
Slíkt hefur ALDREI heyrst um fólk í valdastöðu... eða misminnir mig?

Þetta er að mínu mati einn helsti vandi miðstjórnar: eftir því sem hún stækkar, þeim mun meira fellur á milli fjalanna, þeim mun minni skilvirkni, fleiri "embættismenn" á hálaunum, meiri sóun, meiri spilling og það sem verst er... meira vald á færri hendur.

"Beurocratism-inn" er sálarlaus maskína sem að rænir sanna pólítík og samfélagsleg tengsl mennskunni! Hvernig féll Rómaveldi? Sovétríkin? Hvaða þróun hefur undanfarið átt sér stað í t.d. Bandaríkjunum... nefni Patriot Act sem dæmi?
Svarið er: miðstýrða valdið... vill sölsa undir sig meira vald, sem leiðir á endanum til falls.

Má í raun ekki líta á miðstýringu sem mislukkaða tilraun? Aftur og aftur má sjá söguna endurtaka sig, enda virðist fólki lífsins ómögulegt að draga nokkurs konar visku eða lærdóm af því sem áður hefur gerst.
"Nei, sko... þetta er NÚTÍMINN, við erum svo Þróuð í dag... fólk var svo fáfrótt og vitlaust í gamla daga"
Æ, nútímahroki... fær mig alltaf til að brosa út í annað en gráta út í hitt.

Málið er, að frá upphafi landbúnaðar hefur sama þemað verið viðvarandi:
1 Misskipting auðs og valds: stéttaskipting.
2 Spilling á æðstu stöðum.
3 Offjölgun fólks og..
4 ...eyðilegging landgæða.
5 Stríð vegna landnæðis/auðlinda.
6 Sjúkdómar og hrörleiki (dyggir fylgifiskar m.a. stríðs!)
7 Landvinningar og... aftur á skref 1.

Með öðrum orðum... við höfum, á síðustu 10.000 árum, verið plága!
Við höfum markvisst grafið undan farsæld komandi kynslóða til að seðja hungur okkar í MEIRA.
Þar er valda/peninga-fíknin etv. sú skaðlegasta, þar sem fátt gerist ef að völd/peningar koma ekki að.

En hvað hefur landbúnaður að gera með ESB? Allt, að sjálfsögðu!
Fólk á það til að gleyma - vegna þess að mörg búum við í þéttbýlum og borgum - að landbúnaður er mikilvægasta undirstaða borgarmenningar, ásamt vatni, orku (nú mest jarðefnaeldsneyti) og efnivið.
Þessvegna hefur LAND alltaf verið stærsta baráttumál fólks í gegnum tíðina, því land táknar allt fernt: mat, vatn, orku og efnivið. Í dag er hlutunum eins háttað en með nokkrum tæknilegum breytingum.

Helsta breytingin er alþjóðamarkaðurinn. Nú er ráðstöfun lands og auðlinda að ALLTOF miklu leyti ákveðið af öflum utan ríkjanna þar sem þessar auðlindir/jarðnæði hvíla. ESB er eitt af þessum öflum, en það sem verra er, þá ver ESB hagsmuni alþjóðamarkaðsafla grimmt.
Og það gera margflestar ríkisstjórnir í dag, því miður, því það er gríðarlegur þrýstingur á þær frá alþjóðlegum fjármálaöflum þessa heims... því, jú þú gast rétt: fjármálaöflin vilja meira vald. Farin að sjá ákveðna endurtekningu?

Ég segi... tökum valdastyttuna og gullkálfinn, brjótum í þúsundir mola og dreifum jafnt á milli okkar. Hættum að nota "efnahagsvöxt" sem hið eina sanna viðmið á velferð og vöxt samfélagsins. Hættum að einblína eingöngu á vandamálin og förum að upphugsa raunhæfar lausnir, rétt eins og líf okkar lægi að veði - því sú er raunin! Stefnum á sjálfbærni og skynsemi í auðlinda-, sjávar- og landnýtingu, áður en við gjörskemmum leikborðið fyrir öllum, núverandi sem og komandi kynslóðum manna og alls lífs.

Því það er meira í húfi en laun. Það er miklu meira í húfi en að viðhalda táknrænum - en úreltum - stofnunum og hampa forræðishyggju sem dyggð, jafnvel kalla hana sjálfstæði... Það er mun meira í húfi en við vitum, því að ekki þekkjum við framtíðina né möguleikana sem þar bíða; við getum bara ímyndað okkur og þó að ímyndunaraflið sé vissulega miklum takmörkum háð, þá er fátt sem gerir okkur mennskari né fátt sem er jafn gríðarleg auðlind!
Úrræðasemin hefur reynst okkur vel síðustu 200 þúsund árin, þó svo að við höfum látið eigið ágæti stíga okkur verulega til höfuðs, síðustu nokkur þúsund.

Líklega er ég álitinn af mörgum útópíanisti og draumóramaður, þeim sem hraðast fella sleggjudóma með hinum ýmsu hugtakastimplum - sem þeir oftar en ekki hafa lítinn raunverulegan skilning á.
"Útópían" (þeas. samfélag raunverulegs frelsis og jafnréttis) getur orðið að veruleika... þegar við trúum því og drullumst til að gera eitthvað af viti í málunum - þau leysa sig ekki sjálf.

Fleiri launaðar nefndir, stærra og umfangsmeira regluverk, ásamt framsali valds frá fjöldanum til hinna fáu... er fáránlega fávitaleg fásinna fáfróðra. Og hananú.
mbl.is Með lægri laun en embættismenn ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta fréttaflutningur eða auglýsingaáróður?

Ef þetta er það sem kallast fréttaflutningur dagsins í dag... umfjöllun um eina vöru ákveðins markaðsráðandi fyrirtækis? Eins og Bens þurfi frekari umfjöllun?

Mig varðar einu hvaða kostum eða göllum einhver bíltegund býr yfir.
Hvernig í ósköpunum er það réttlætt af fréttamiðlum - sem hafa það mikilvæga hlutverk að gera  markverðar upplýsingar og þjóðarmálefni sýnileg - að blátt áfram leggja frétt undir auglýsingaáróður, í þessu tilfelli líklega sponserað af umboði Mercedes Bens?

Það er verið að hæðast að hugtakinu "fréttir", með svona lágkúru.
mbl.is Kassabíll með kosti fjölnota bílsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB veldið: frjálst bandalag frjálsra þjóða?

Það, að veldisbákn á borð við Evrópusambandið vilji eyða pening í að þagga gagnrýni, ætti ekki að koma neinum á óvart. Í raun er þetta líklega ekki mesta siðleysið sem hefur viðgengist þar á bak við lokaðar dyr, þó svo að þetta ákveðna atriði hafi ratað í fréttir.
Hópar eða einstaklingar sem hafa vald, munu ávallt reyna að viðhalda því, helst auka það. Nóg er af slíkum dæmum í mannkynssögunni og valdaskák síðari ára.

Spurningin er, ætlum við að láta svona fréttir okkur litlu varða, leyfa þeim að sópast undir borð á meðan fjölmiðlar flagga ómerkilegri fréttum sem merkilegum?
Ef þú gerir ráð fyrir að hið fréttnæmasta sé sýnilegast í fjölmiðlum, þá hefur þú leyft þeim að draga hulu fyrir skilningarvit þín. Heimurinn séður í gegnum glugga hefðbundinna fjölmiðla er takmarkaður í besta falli, en hreint út brenglaður í versta falli.

Í meðvituðu lýðræðisríki rökrétt hugsandi einstaklinga, væri þessi tegund frétta á forsíðum og í helstu fréttum sjónvarps.
Í frjálsu samfélagi, myndi fólki blöskra svona ágang á tjáningarfrelsi og lýðræði... og vaða út á götur, harðneitandi að ganga undir þessa nýju alræðisstjórn.

Því þetta er Hin Rétta Mynd Evrópusambandsins, svona fréttir varpa flóðlýsingu á það. Bara enn ein miðstjórnin sem sannfærir þjóðríki um að framselja frelsi og vald áfram til sín, líkt og ýmsar alþjóðastofnanir (World Trade Organization, World Health Organization, World Bank, International Monitary Fund o.fl) og -stórfyrirtæki, sem teygja áhrif sín eins og kolbrabbar um víða veröld. Peningar og völd eru sitthvor hliðin á sömu myntinni...
...og sú mynt er ekki í höndum okkar flestra.

Ef við lifum í þeirri áhyggjuleysisbólu að Hitler, Stalín og ofríki fortíðarinnar geti ÓMÖGULEGA endurtekið sig, þá erum við að bjóða nýja Hitler og nýja Stalín velkomna. Við erum meira að segja búin að leggja á borð fyrir þá og hlekkja okkur sjálfviljug við borðfótinn.

"Segðu mér hvað ég á að gera næst, ó leiðtogi, ó ríkisstjórn, ó Evrópusamband!
Ég er ekki hæf(ur) um að vernda eigið frelsi eða eigin hagsmuni... né þá að hugsa eða ákveða! Plís gerðu það fyrir mig, plís koddu og lagaðu landið mitt:
það er fullt af náttúruauðlindum og möguleikum en ég KANNEKKI-GETEKKI-VILEKKI-NENN'EKKI nýta þær sjálf(ur)! Þú mátt nota allt ef þú kemur og skiptir á bleyjunni minni!"

George Orwell og Aldous Huxley bylta sér í gröfinni, segjandi...
"...við vöruðum ykkur við!"
mbl.is Vill taka á gagnrýni á ESB á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvenjulega venjulegt.

Verum venjuleg.

Hvað gæti verið að því?

"Venjulegt" er hin sameiginlega ímyndun okkar sem lifum í samfélagi: þetta er samnefnarinn, millivegurinn - samstillt rás þar sem við getum skilið aðra og skilist af öðrum.
En eins og svo margt hefur "hið venjulega" sínar myrku hliðar.

Fólk gerir nefnilega ráð fyrir því að það sé sjálfkrafa gott að vera venjulegur, svo allir keppast eftir því. Fáir stoppa til að spyrja hvort að hið Venjulega samanstandi í raun af skynsamlegri hegðun og endurspegli markmið samfélagsins... ef heildarmarkmið eru almennt til staðar.

Þannig að sú staða getur hæglega komið upp - og ég tel að hún sé uppi nú þegar - að fólk sé einfaldlega að eltast við stefnu fjöldans, því það hljóti jú að vera venjulegt og þarmeð gott. Ef að fjöldinn tilbiður neysluhyggju, gervikennd og kappsama einstaklingshyggju, þá hlýtur það að vera afskaplega eftirsóknarvert... er ekki svo?

Er ekki alltaf sagt að samkeppni sé svo góð? Er það ekki samkeppni sem að samfélagið er byggt á... eða er það misskilningur?

Nei, takið ykkar venjulegheit og hendið þeim út á hafsauga... ég vil ekki sjá þau!
Ég vil gera stóran greinamun á því sem er venjulegt (hegðun og skoðanir fengnar að láni frá fjöldanum) og því sem er eðlilegt (mennskir eiginleikar og þarfir, sem allar manneskjur jarðar deila).
Lög og samfélagsfyrirkomulag ætti að einskorða sig við að vernda og uppfylla grundvallar mannlegar þarfir. Þegar lög fara að vernda langanir eða hagsmuni ákveðinna hópa, er strax komið út á villigötur.

Ætti menning þjóðlífsins svo ekki að búa jarðveginn fyrir raunverulegan samfélagsvöxt - þroska, visku og þróun - mælanlegan á öðrum forsendum en hinum sívinsæla "efnahagsvexti"?

Búið er að ræna mannlífið mennskunni.
Hvar eru lögin og regluverkið sem vernda gegn ÞVÍ?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband